Síðasti tengslafundur Festu árið 2019 mun fara fram hjá Marel í hádeginu föstudaginn 22.nóvember.
Marel hlaut núna í lok október hvatningarverðlaunin Framúrskarandi samfélagsábyrgð 2019 en verðlaunin eru veitt af Creditinfo í samstarfi við Festu
Í áliti dómnefndar segir meðal annars:
Fyrirtækið sem hlýtur viðurkenningu í ár fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð hefur skapað sér stefnu á því sviði með heildstæðum hætti út frá rekstri fyrirtækisins. Það fer ekki á milli mála að stjórnendur leggja sig fram um að skapa menningu innan fyrirtækisins þar sem jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi eru í forgrunni. Sjálfbærni er sett fram sem mikilvægur hlekkur í leiðarljósi fyrirtækisins. Fyrirtækið nýtir viðurkenndar aðferðir til að mæla stöðu og þróun í málum er varða stjórnarhætti, félagslega þætti og umhverfisáhrif.
Mælingarnar sýna fram á árangur á milli ára á ýmsum sviðum, svo sem í mannauðs- og umhverfismálum sem og efnahagslega. Jafnframt draga mælingarnar fram þær áskoranir sem fyrirtækið stendur frammi fyrir í rekstri sínum.
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi, segir í tilefni verðlaunaafhendingarinnar að verðlaunin séu mikil hvatning fyrir fyrirtækið. „Við þurfum að vera og erum mjög markviss í öllum okkar aðgerðum tengdum samfélagslegri ábyrgð,“ segir Guðbjörg. „Það er mikil matarsóun í virðiskeðjunni á heimsvísu eða um 1,3 milljarðar tonna á ári, eitthvað sem við getum ekki litið fram hjá. Að sama skapi teljum við það vera mikilvægt tækifæri að nýta tækni og nýsköpun til þess að þróa lausnir sem nýta verðmætar auðlindir á skynsaman hátt. Við teljum þá einnig að grundvöllur fyrir langtíma verðmætasköpun felist í að líta á hlutverk fyrirtækja í víðara samhengi, að huga að öllum haghöfum og skila virðisaukningu til samfélags, viðskiptavina, starfsmanna og hluthafa.“
Uppbókað er á fundinn – til að komast á biðlista sendið póst á harpa@samfelagsabyrgd.is