10.12 2019 – 08:30-12:00

GRI staðl­ar – Masterclass nám­skeið
@Háskólinn í Reykjavík #M208

Menntavegur 1
101 Reykjavík
Skrá mætingu

Festa og Háskólinn í Reykjavík í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands býður til  masterclass námskeiðs í GRI stöðlum. 

Global Reporting Initiative, eða GRI staðlarnir eru alþjóðlega viðurkenndir staðlar um miðlun upplýsinga um samfélagslega ábyrgð og eru notaðir í yfir 100 löndum. 80% af 250 stærstu fyrirtækjum heims nota GRI og vinningshafar Samfélagsskýrslu ársins á Íslandi 2018 og 2019 byggðu skýrslur sínar á GRI. GRI eru almennt taldir víðtækustu og nákvæmustu staðlarnir til að halda utan um efnahagsleg, umhverfisleg og félagsleg áhrif fyrirtækja og stofnana.

Námskeiðið í desember er sett upp sem masterclass, þar sem þátttakendur fá inngangsfræðslu um GRI, fá innsýn inn í reynsluna af því að gera GRI skýrslur, af hverju þær eru gerðar og hvað sé á döfinni hjá GRI alþjóðlega. Festa stefnir á að bjóða þá til lengra og ítarlegra námskeiðs á næsta ári í samstarfi við GRI Worldwide Certified Training Partners.

Global Reporting Initiative (GRI) er óháð alþjóðleg stofnun sem hefur verið leiðandi í gerð leiðbeininga og þróun staðla fyrir greiningar og gerð samfélagsskýrslna frá árinu 1997.

 • Tímasetning: 10. desember 2019 – kl: 8.30-12.00
 • Staðsetning: Háskólanum í Reykjavík  – stofu 208
 • Verð:
  • Aðilar Festu og Viðskiptaráðs Íslands: 10.900
  • Aðrir: 14.900

Leiðbeinandi: Viktoría Valdimarsdóttir, stofnanda Ábyrgra Lausna og stundakennari við Háskólann í Lúxemborg.
Sérstakir gestir verða:

 • Ásthildur Hjaltadóttir, Chief Regional Implementation Officer, GRI.
 • Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sérfræðingur hjá Landsbankanum í samfélagsábyrgð og ráðgjafi við gerð Samfélagsskýrslnanna árið 2018 og 2019.

Á námskeiðinu verður leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

 • Hvað er GRI?
 • Hvernig eru samfélagsskýrslur byggðar á GRI?
 • Hvaða forskot veitir GRI?
 • Hvernig eru ESG (UFS) staðlarnir, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og UN Global Compact tengd við GRI?

Um leiðbeinandann:
Viktoría Valdimarsdóttir er ein af stofnendum Ábyrgra lausna, sem aðstoðar fyrirtæki og sveitarfélög við að innleiða nýjar áherslur í stefnu þar sem umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir eru greindir og mældir samhliða fjárhagslegum þáttum. Undanfarin ár hefur hún haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra með áherslur á ófjárhagslega þætti í rekstri, ábyrgar fjárfestingar og græn verkefni. Viktoría er viðskiptafræðingur (Cand.Oecon) að mennt frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu í fumkvöðlafræði og nýsköpun sem og vottun í sjálfbærri þróun og samfélagslegri nýsköpun frá Háskólanum í Lúxemborg. Viktoría er stundakennari við Háskólann í Lúxemborg og starfaði áður um árabil á Íslandi sem markaðsstjóri m.a. hjá Landsbréfum.

Gestafyrirlesararnir:

Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sérfræðingur hjá Landsbankanum og ráðgjafi við gerð Samfélagsskýrslanna árin 2018 og 2019 ræðir reynslu sína af því að gera samfélagsskýrslur, áskoranir og tækifæri. Aðalheiður mun ennfremur velta upp spurningum um það á hvaða sviði fyrirtæki og stofnanir á Íslandi ættu að leggja áherslu á að byrja að mæla. Aðalheiður hóf störf hjá Landsbankanum síðasta sumar sem sérfræðingur í samfélagsábyrgð en hefur starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi í samfélagsábyrgð undanfarin ár. Aðalheiður var stjórnarmaður í Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja á árunum 2015-2017 og lauk GRI námskeiði á vegum Festu og Enact árið 2015.
Aðalheiður er með M.Sc. í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Ásthildur Hjaltadóttir starfar fyrir Global Reporting Initiative í Hollandi og hefur áralanga reynslu af gerð GRI mælinga og skýrslna um allan heim. Ásthildur verður með okkur á fjarfundabúnaði og mun veita innsýn inn í spennandi nýjungar hjá GRI og taka dæmi um ávinning fyrirtækja af því að nota GRI þegar kemur að samkeppnishæfni á Íslandi og alþjóðlega. Hún fjallar um það hvernig Ísland stendur sig í samanburði við aðrar þjóðir og hvað er á döfinni hjá GRI sem við viljum ekki missa af. Ásthildur hefur unnið hjá GRI í Amsterdam síðan 2007 og gegnt ýmsum stöðum hjá stofnuninni á þeim tíma, meðal annars sem einn af tveimur verkefnastjórum sem hafði yfirumsjón með þróun G4 leiðbeininganna og síðar sem framkvæmdastjóri þjónustu- og þjálfunardeilda. Frá september 2017 hefur Ásthildur haft yfirumsjón með öllum skrifstofum GRI utan Amsterdam og einnig útfærslur á öllum ríkisstyrktum verkefnum, aðallega í þróunarlöndum. Áður en hún hóf störf hjá GRI vann Ásthildur hjá alþjóðastofnunum í Brussel og Den Haag.

Miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni

Mennta­veg­ur 1
101 Reykja­vík
festa@sam­felagsa­byrgd.is