Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Icelandair Hotels Sterk stefna í sam­fé­lags­ábyrgð veit­ir sam­keppn­is­for­skot

Magnea Þórey Vilhjálmsdóttir er framkvæmdastjóri Icelandair hotels.
Markviss stefna í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu er lykilatriði ef Ísland á áfram að vera hátt á lista erlendra ferðamanna um spennandi staði til þess að heimsækja. Þetta segir Magnea Þórey Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hotels. Þá segir hún ferðamenn í auknum mæli velja hótel með það fyrir augum hvort það taki sína samfélagslegu ábyrgð alvarlega.

„Að sinna samfélagslegri ábyrgð er að mínu mati orðið algerlega sjálfgefið í það minnsta fyrir stærri fyrirtæki hér á landi, og jafn sjálfsögð krafa og að standa skil á opinberum gjöldum,“ segir Magnea. Lykilatriði í stefnu Icelandair Hotels er að sýna ábyrgð gagnvart samfélaginu og umhverfinu, en þetta eru atriði sem höfð eru að leiðarljósi í daglegum viðskiptum fyrirtækisins. Magnea segir virðingu gagnvart náttúru Íslands, starfsfólki hótelanna og virkri þátttöku í samfélaginu fléttast saman við alla starfsemi fyrirtækisins. Það sést berum augum þar sem við göngum saman um hótelið Reykjavík Natura við Nauthólsveg en þar má sjá verk eftir íslenska listamenn á göngum hótelsins, ferðamönnum til mikillar gleði. Á skrifstofu hótelsins er stefna fyrirtækisins um samfélagslega ábyrga viðskiptahætti höfð fyrir augum.

Aðspurð um fjárhagslegan ávinning af þessari stefnu fyrirtækisins í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins segir Magnea hann ekki alltaf augljósan í fyrstu. Hann sé hins vegar ótvíræður í tilviki virkrar umhverfisstefnu.

Það hefur sannarlega sýnt sig að það er verulega hagkvæmt að fjölga grænum skrefum í hótelrekstri.

Flokkun sorps er auðvitað nærtækasta dæmið um hvernig skera megi niður kostnað. Við mælum alla flokkun og setjum okkur markmið þar um, og hvetjum einnig bæði gesti okkar og starfsfólk til að setja minna á diskinn og henda ekki mat til að forðast matarsóun,“ útskýrir Magnea. Hún segir fyrirtækið hafa leitað leiða til að spara rafmagn með ýmsum hætti, til að mynda með því að nota skynjara í meiri mæli og skipta út venjulegum rafmagnsperum fyrir led perur. Þá er gestum boðið upp á að afþakka þrif herbergja og þiggja þess í stað inneign á veitingastað hótelsins sem hluta af orkusparnaði hvers hótels

„Icelandair hótelin voru fyrst til að innleiða alþjóðlegan umhverfisstaðal, ISO 14001 í rekstur allra okkar hótela og hefur eftirlit erlendra umsjónaraðila þess staðals reynst okkur frábært aðhald og tryggt áframhaldandi þróun frá ári til árs.“

Hún segist hafa áttað sig fyrst á því að það leyndist verulegur fjárhagslegur ávinningur fyrir fyrirtæki með markvissri stefnu í sjálfbærni þegar Icelandair fór að flokka sorp.

„Við fórum að fá borgað fyrir að henda ákveðnum hlutum eins og bylgjupappa. Tilfinningin er líka ansi góð þegar maður hugsar til þess á sama tíma að þegar að við, þetta stóra fyrirtæki, ákváðum að flokka að þá þarf ekki að fella rúmlega 800 tré.”

800 færri tré felld vegna umhverfisstefnu Icelandair Hotels

Magnea telur að þegar fyrirtæki hefji innleiðingu á umhverfisstefnu verði ekki aftur snúið enda séu mikil verðmæti í því sem áður var talið sorp. „Ég held að engum hér til að mynda detti í hug að henda flöskum eða dósum í almennt sorp í dag. Fólk veit að það eru verðmæti falin í slíkum umbúðum og að það sé sóun að henda þeim, þá er betra að fá endurgreitt andvirði þeirra, eða enn frekar að styrkja gott málefni og gefa til söfnunar.“

Þá hefur fyrirtækið valið birgja og byggingaraðila eftir því hvort þeirra starf sé sjálfbært. Teppin á Reykjavík Natura eru þannig úr plastögnum úr sjó. „Þegar við þurftum að endurnýja teppin þá hófum við strax samtal við birgjann um hvernig mætti gera þetta með sem umhverfisvænstum hætti,“ útskýrir Magnea og bætir við að áður en ráðist sé í nokkrar endur- eða viðbætur sé skoðað hvernig má lágmarka sóun og kolefnisspor. Hún telur að sem flest fyrirtæki ættu að tileinka sér umhverfisvænan rekstur og að það sé skylda okkar Íslendinga að umgangast náttúruauðlindir okkar af virðingu.

Magnea telur þar að auki sterk stefna í samfélagslegri ábyrgð gefa Icelandair ákveðið samkeppnisforskot. „Það er orðin æ háværari krafa erlendra gesta að dvelja á hótelum sem gefa til baka til samfélagsins sem heimsótt er, og við sjáum það í ríkari mæli að gestir velja okkar hótel vegna þess að við tökum samfélagslega ábyrgð okkar alvarlega,“ útskýrir hún.

Við fáum reglulega fyrirspurnir um umhverfisáherslur okkar og samfélagsábyrgð frá erlendum ferðaheildsölum sem láta þessi mál sig varða.

Það eru ekki aðeins viðskiptavinirnir sem gera kröfu um samfélagslega ábyrga viðskiptahætti heldur sér hún þess stað hjá starfsmönnum sínum að auki. „Það er ekki síður gefandi fyrir starfsfólk okkar að góð málefni séu styrkt af félaginu og einnig að viðskipti við önnur íslensk félög séu í forgangi umfram erlend. Þannig aukum við hag samfélagsins og minnkum kolefnisfótspor fyrirtækisins.“

Svipmyndir frá Icelandair Hotel Reykjavík Marina.

Fyrirtækið notast við umhverfisstjórnunarkerfi Klappa til þess að mæla notkun og þróun á umhverfisþáttum sem skilgreindir hafa verið fyrir starfsemina. Hún segir að varðandi mælingar á fjárhagslegum ávinningi gæti fyrirtækið ef til vill gert enn betur en það séu þó margir þættir sem sé hreinlega ómögulegt að meta til fjár.

„Við byggjum afkomu okkar á auðlindum þessa lands, sjálfbærni til framtíðar er lykillinn að áframhaldandi velsæld og sömuleiðis sérstöðu Íslands sem áfangastað ferðamanna.“

Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Isavia Áhersla á sjálfbærni er arðbær fjárfesting til framtíðar

Miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni

Mennta­veg­ur 1
101 Reykja­vík
festa@sam­felagsa­byrgd.is