Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Mjólkursamsalan Inn­leið­ing hringrás­ar­hag­kerf­is reynd­ist arð­bær fjár­fest­ing

Umhverfisvernd hefur verið Mjólkursamsölunni (MS) hugleikin um nokkurt skeið en markvisst hefur verið unnið að því að draga úr sóun og auka hagkvæmni fyrirtækisins. Stærsta hugarfarsbreytingin sem orðið hefur hjá fyrirtækinu er að líta á lífrænan úrgang, sykur og prótein sem fellur til við framleiðslu á mjólk, sem verðmæti og þar af leiðandi fjárhagslegan ávinning fyrir fyrirtækið, bændur og neytendur. Þá hefur fyrirtækið lagt mikið upp úr því að setja sér skýra stefnu þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð í öðrum efnum en stefna MS í samfélagsmálum er þríþætt; ábyrg framganga þegar kemur að vörum fyrirtækisins, starfsfólki þess og samfélaginu sem það tekur þátt í.

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, segist sjá mestan fjárhagslegan ávinning af samfélagslegri ábyrgð þegar umhverfisvernd er annars vegar. Stærsta verkefnið sem MS hefur ráðist í, og jafnframt það sem kemur til með að skila mestum ágóða, er að koma upp verksmiðjum í samstarfi við Kaupfélag Skagfirðinga (KS) á Norðurlandi sem miða að því að fullnýta allar þær aukaafurðir sem falla til við framleiðslu á mjólk og osti á Íslandi. Ekki hefur verið unnt að nýta þessar afurðir hingað til; sem dæmi framleiða KS og MS um 6 þúsund tonn af osti á ári og í það fara um 60 milljón lítrar af mjólk. Hins vegar nýtast aðeins um 6 milljón lítrar í ostinn á meðan 54 milljón lítrar verða að ostamysu sem hellt er út í sjó. MS hefur markvisst unnið að leiðum til þess að nýta ostamysuna og eru nú unnin úr henni tæplega 400 tonn af próteindufti á ári sem selt er til framleiðenda á íþróttavörum. Síðar á þessu ári stendur til að opna verksmiðju til þess að fullnýta mjólkursykurinn en úr honum er hægt að framleiða 1.5 milljón lítra af etanóli á ársgrundvelli. Samfélagsleg nýsköpun af þessu tagi er eitt dæmi um hvernig áhersla á sjálfbærni fyrirtækja getur haft fjárhagslegan ávinning auk þess sem betur er farið með umhverfið og nýtingu auðlinda.

Það eru tækifæri á hverju strái.

„Þegar vísindi og hugvit koma saman, sem og sprotafyrirtæki og nýjar lausnir, þá eru alveg sömu tækifærin á sjóndeildarhringnum í landbúnaði og öðrum atvinnugreinum. Það þarf bara að hugsa.“ Hann segir tækifærin gríðarlega fjölbreytt þegar kemur að nýtingu á þessum hráefnum. Því hefur MS lagt áherslu á að efla frumkvöðlastarf hér á landi, sér í lagi í landbúnaði, og þannig hvetja aðila sem búa yfir hugviti til þess að framleiða endanlega framleiðsluvöru til neytenda úr ostamysunni. „Úr þessu hráefni, sem rann áður bara í sjóinn, væri hægt að hafa meiri tekjur en allar tekjur sem mjólkuriðnaðurinn hefur haft fram til dagsins í dag,“ segir Ari. „Við erum að fylgja kallinu um hringrásarhagkerfi, með það að markmiði að frárennslið frá okkur verði bara vatn.“ Ari spáir því að fyrr en varir verði gerðar auknar kröfur um losun á lífrænum úrgangi, en ef svo hefði verið án verksmiðjunnar hefði MS neyðst til þess að fjárfesta í hreinsibúnaði. „Þá hefði heildarkostnaður við hreinsibúnaðinn verið að minnsta kosti þrisvar sinnum meiri en fjárfestingin í verksmiðjunni og verið bara kostnaður en ekki ný starfsemi sem stendur undir sér.“

Ari segist hafa séð það lengi að hvers kyns samfélagslega ábyrgir viðskiptahættir skapi auð fyrir fyrirtæki. Markvisst hefur verið unnið að því alls staðar í fyrirtækinu að minnka sóun, bæði með því að endurskipuleggja flutning á mjólk milli landshluta, með því að skipta úr olíu yfir í rafmagn á mjólkurbúum þar sem mjólkin er gerilsneydd og koma á betra samstarfi við birgja um umhverfisvænar umbúðir. „Við höfum flutt eins mikið vörum og við getum í bili úr plastmálum með álloki yfir í pappafernur með lífrænum tappa. Við höfum fengið hól fyrir að vera með umhverfisvænustu fernur sem völ er á en þær hafa 66 prósent minna kolefnisspor en fernur sem voru notaðar áður. Varðandi birgja þá er það þannig að ákveðnar vörur hjá okkur eru ennþá í plastmálum. Þá felst ábyrgðin til dæmis í því að skipta við innlendan birgja þar sem plastkúlurnar, hráefnið í umbúðirnar, koma í einum gámi í staðinn fyrir tíu ef menn flytja inn umbúðirnar frá útlöndum. Framleiðandinn er þá hér í nærumhverfinu og notar íslenska, endurnýjanlega orku við að umbreyta þessum kúlum í umbúðir handa okkur.“

Með því að fylgjast með ferðum mjólkurflutningabíla sinna hefur MS breytt því hvernig mjólk er sótt á bæi með það að markmiði að sækja meiri mjólk per lítra af dísilolíu en áður. Íslensk kúabú á Íslandi er heimsótt samtals um 80 þúsund sinnum á ári til þess að sækja 150 milljón lítra af mjólk sem verður að um 70 þúsund tonnum af vörum í dreifingu til stórnotenda og verslana. Því hefur það mikið að segja að betrumbæta flutningakerfið. Tekist hefur að fækka bílum og eknum kílómetrum með því að hafa umhverfisvernd í fyrirrúmi.

Það hefur orðið gríðarleg hagræðing, við erum að uppskera fjárhagslegan ávinning.

„En ég er ekkert svo viss um að við séum farin að hafa mikinn ófjárhagslegan ávinning sem snýr að ímynd fyrirtækisins og viðhorfi almennings. Ekki miðað við hvað við höfum verið að gera margt.“

Mjólkursamsalan hefur á síðastliðnum árum fært vörur sínar yfir í umhverfisvænni umbúðir.

Mjólkursamsalan hefur, auk umhverfislegu þáttanna, lagt áherslu á önnur atriði sem UFS viðmið Kauphallarinnar gera kröfu um, það er félagslegu þættina og stjórnarhætti. Hvað viðkemur því síðastnefnda nefnir Ari fyrst ábyrga viðskiptahætti. „Ábyrg framganga getur afstýrt stórkostlegu tjóni, það er nú bara eitt, það er enginn vafi á því,“ segir hann og nefnir í því samhengi deilur sem MS hefur staðið í við Samkeppniseftirlitið á undanförnum árum. Segir hann það ótvírætt að ef fyrirtækið hefði verið talið brotlegt við þau atriði sem Samkeppniseftirlitið gerði athugasemd um hefði það haft alvarleg áhrif á reksturinn. „Okkar áhugi á að vera til fyrirmyndar í þessum efnum, eins og öðrum, kemur nú meðal annars fram í því að við höfum lagt mikla vinnu í að setja okkur samkeppnisréttaráætlun sem gengur út á það að kortleggja, með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa, alla þá áhættu sem getur verið í starfsháttum fyrirtækisins eða starfsemi.“ Þetta sé gert meðal annars til að tryggja að fyrirtækið fari í öllu eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

„Varðandi mannauðinn þá er það öll stefnumótun og framkvæmd varðandi starfsmannahald. Við getum nú verið ágætlega sátt við okkar stöðu varðandi þau mál. Við höfum verið að ganga frá hlutum eins og jafnlaunavottun og höfum gert jafnréttisáætlun og slíkt. Það var nú ánægjuleg niðurstaða varðandi jafnlaunavottunina að óútskýrður launamunur, hann var ekki nema 1.5 prósent hjá okkur og það  sem var óvenjulegra var að  það var konum í vil. En við settum okkur líka stefnu í málum sem varða einelti, kynferðislegt áreiti og ofbeldi og líka varðandi vöxt í starfi.“ Hann segir að sín eigin starfsánægja og annars starfsfólks aukist með áherslu á sjálfbærni, að starfsfólk í vöruþróun njóti jafnframt góðs af áherslu á hámarksnýtingu afurða og spennandi áskoranir skapist með því.

Þrátt fyrir möguleika á fjárhagslegum ávinningi af því að einblína á sjálfbærni segir Ari það ekki hafa verið upphaflega ástæðan fyrir því að Mjólkursamsalan ákvað að ráðast í samfélagslega ábatasöm verkefni. „Við sjáum betri fjárhag eða ímynd ekki endilega fyrir okkur þegar við erum að styðja okkar starfsfólk eða frumkvöðla í samfélaginu. Ávinningurinn er líka bara gleði. Það er nú einhvers virði að hafa gaman að þessu.“

Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni

Mennta­veg­ur 1
101 Reykja­vík
festa@sam­felagsa­byrgd.is