Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Klappir Fjár­fest­ar kjósa held­ur fyr­ir­tæki sem setja sjálf­bærni á odd­inn

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa grænna lausna hf., segir algjört grundvallaratriði fyrir fyrirtæki dagsins í dag að þau standi að traustu og gagnsæju umhverfisuppgjöri og sýni samfélagsábyrgð sína í verki. Það sé bæði mikilvægt til þess að uppfylla lagalegar kröfur og tryggja gott orðspor og enn fremur leiði það til fjárhagslegs ávinnings. Rík áhersla er lögð á þetta í Parísarsamkomulaginu frá 2015. Stjórnendur hjá Klöppum eru sannfærðir um að stafræn tækni sé hagkvæmasta, skilvirkasta og ábyggilegasta aðferðin til þess að fá yfirsýn um raunveruleg umhverfisáhrif fyrirtækja.

Að mati Jóns Ágústs varð hugarfarsbreyting í íslensku samfélagi árið 2015 þegar eitt hundrað forstjórar skrifuðu undir Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í Höfða. Þá fóru íslensk fyrirtæki að fjárfesta af auknum krafti í að ná utan um umhverfisáhrif sín, mæla ávinning af aðgerðum og setja sér markmið. Klappir grænar lausnir hf. hófu þó vegferð sína fyrr en hugmyndin að fyrirtækinu fæddist árið 2014 þegar aðstandendur félagsins ráku annað fyrirtæki sem hjálpaði skipum að halda utan um umhverfismál sín. Þau sáu í hendi sér að brýnt væri að ná einnig betur utan um umhverfismál á öðrum sviðum atvinnulífsins. Í dag halda sjálfbærnilausnir Klappa utan um orkunotkun og sorpmyndun hjá yfir 350 fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum, og veita notendum hugbúnaðarins þar með skýra og skiljanlega mynd af vistspori og orkukræfni. Sjálfbærnilausnir Klappa hafa þannig myndað svokallað „stafrænt vistkerfi“ á Íslandi, sem nú hjálpar fjölda íslenskra fyrirtækja að fara betur með auðlindir þjóðarinnar, lækka rekstrarkostnað og hlíta umhverfislöggjöf. Klappir liðsinna fyrirtækjum enn fremur við að gera umhverfisuppgjör og samfélagsskýrslur samkvæmt ESG-viðmiðum Kauphallarinnar. Íslenska skammstöfunin fyrir ESG-viðmiðin er UFS, sem stendur fyrir „umhverfislegir, félagslegir þættir og stjórnarhættir“.

„Allir þessir þættir hafa áhrif á sjálfbærnieinkunn fyrirtækja,“ segir Jón Ágúst.

Ef fyrirtækið hegðar sér á samfélagslega ábyrgan hátt - fer að lögum, skilar arði til samfélagsins hvort sem það er í launum eða sköttum, vinnur að jafnrétti kynjanna og svo framvegis - þá er það öruggari og meira aðlaðandi kostur fyrir fjárfesta en fyrirtæki sem getur ekki sýnt fram á að þessir þættir séu í lagi.

Jón Ágúst bætir því við að illa geti farið fyrir fyrirtækjum sem eru ekki með stjórnahætti sína í góðu lagi. „Bókhald um þau atriði þarf auðvitað að vera traust og ábyggilegt þannig að fólk geti treyst því að þær upplýsingar, sem þar komi fram, séu réttar.“

Fjárhagslegur ávinningur fyrirtækja af því að iðka samfélagslega ábyrga viðskiptahætti kemur fram með tvenns konar hætti að mati Jóns: „Fyrirtæki ná fram rekstrarsparnaði þegar þau horfa grannt á þær eignir sínar sem menga; skoða hvernig farið er með eldsneyti, rafmagn, heitt vatn og allt sem til dæmis snýr að ferðalögum starfsfólks. Þá átta menn sig betur á því hvar má draga úr kostnaði og bæta sjálfbærni félagsins. Í öðru lagi verða fyrirtæki, sem sinna þessum málum, verðmætari. Þau ganga á hærra verði og vörur og þjónusta þeirra eru hærra metin í samfélaginu.“

Klappir bjóða upp á ýmis tól fyrir fyrirtæki sem þau nota til þess að mæla umhverfisáhrif af starfsemi sinni.

Jón Ágúst segist finna fyrir mikilli breytingu á viðhorfi fjárfesta á síðastliðnum tveimur árum. „Þegar nýir fjárfestar koma á markað spyrja þeir hvernig fyrirtækjum gengur í samfélagsmálum. Þeir vilja lesa samfélagsskýrslur og við sjáum að þeir eru tilbúnir að borga hærra verð fyrir hlutabréfin hjá fyrirtækjum þar sem þetta er allt saman þegar til staðar.“ Hann nefnir að Landsbankinn, sem er í hópi viðskiptavina Klappa, skoði um þessar mundir allt eignasafn sitt með tilliti til sjálfbærni hverrar eignar. „Þau fyrirtæki, sem ekki mæla þessa þætti, eiga erfiðara uppdráttar.“

Jón Ágúst tekur fram að nauðsynlegt sé að til staðar séu fjárhagslegir hvatar fyrir fyrirtæki, sem og sterk lagaleg umgjörð, eigi íslenskt samfélag að verða sjálfbærara.

En geta öll fyrirtæki hagað rekstri sínum þannig að þau standi bæði skil á rekstrarhagnaði gagnvart hlutafjáreigendum og samfélagslegum ávinningi?

„Já, tvímælalaust. Fyrirtæki sem sinna þessum málaflokki af alvöru og metnaði eru vel rekin fyrirtæki og skila meiri hagnaði til hluthafa og samfélagsins í heild sinni. Það felst engin mótsögn í því að skila rekstrarhagnaði og að sinna samfélagsleg málum; þvert á móti, þetta er eitt og það sama. Það má ekki stilla þessu upp sem andstæðum.“ Þá segir Jón Ágúst að sýn forstjóra sé algjört lykilatriði þegar fyrirtæki ræðst í átak til að auka sjálfbærni sína.

„Forsenda þess að vel til takist er að forstjórar og yfirstjórnendur hafi augun á þessum málaflokki og styðji vel við starfsfólk sitt.“ Að sögn Jóns er ástæðan fyrir því að samkomulag Festu og Reykjavíkurborgar markaði raunveruleg tímamót í íslensku samfélagi sú að forstjórarnir, sem skuldbundu fyrirtæki sín, tóku í raun og sannleika af skarið. Mörg þessara fyrirtækja nýta sér til dæmis þjónustu Klappa í dag. Jón segir að ekki hafi reynst sérstaklega erfitt að sannfæra íslensk fyrirtæki um að innleiða snjallar lausnir í sjálfbærniaðgerðir sínar. Þessi fyrirtæki hafi nú aðgang að upplýsingum um orkunotkun sína og úrgangsmyndun í rauntíma og geti tekið stefnumótandi ákvarðanir mun fyrr í ferlinu en hægt var fyrir tíma stafrænu tækninnar.

„Eðli fyrirtækja er að mæla, setja sér markmið og byggja á traustum upplýsingum. Forsvarsmenn fyrirtækja skildu strax að þetta gerir maður ekki í Excel-skjali. Hér er ekki um einhverja skorpuvinnu að ræða heldur langtímaferðalag. Eins verður fólk að skilja að það er enga töfralausn að finna í þessum málum.“ Jón kveður mikilvægi þess að fara djúpt í saumana á þessum atriðum vera að renna betur og betur upp fyrir fólki.

Ferðalagið er ekki einfalt en sannarlega þess virði.

„Við þurfum að vera samstillt í þessu átaki og styðja hvert annað. Við hjá Klöppum höfum lagt okkur fram um það að hefja samtal við sem flesta aðila um mikilvægi ferðalagsins, þessa málaflokks og nauðsyn þess að við vinnum ekki hvert gegn öðru, heldur öll í sameiningu. Þannig, og aðeins þannig, náum við árangri.“

Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Icelandair Hotels Sterk stefna í samfélagsábyrgð veitir samkeppnisforskot

Miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni

Mennta­veg­ur 1
101 Reykja­vík
festa@sam­felagsa­byrgd.is