Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Krónan Sjálf­bærni lyk­il­at­riði í blómstrandi rekstri Krón­unn­ar

Stjórnendur Krónunnar hafa lagt ríka áherslu á að hafa jákvæð áhrif á umhverfið og lýðheilsu viðskiptavina sinna. Fyrirtækið sér að hlutverk sitt í samfélaginu er ekki einungis að bjóða landsmönnum upp á fjölbreytt úrval af vörum til daglegra nota heldur er það í kjörstöðu til þess að efla lýðheilsu í landinu, minnka úrgang og sorp og hvetja viðskiptavini til þess að iðka upplýst val á matvöru.

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að í upphafi hafi hvatinn til þess að setja þessi mál á oddinn ekki verið fjárhagslegur. „Við höfum ekki reiknað út fjárhagslegan ávinning og sett fókus á það. Hins vegar vitum við að það er okkar siðferðilega skylda að leggja okkar af mörkum. Það er engin framtíð án umhverfismála. Við erum stórt fyrirtæki og í krafti stærðar okkar í Krónunni erum við sífellt að leita leiða til þess að hafa jákvæð áhrif á samfélagið.” Hún segist aftur á móti finna að aðgerðirnar sem fyrirtækið hefur ráðist í hafi haft gífurlega jákvæð áhrif á reksturinn. Til að mynda hlaut Gréta ásamt Krónunni Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2019 en í frétt um verðlaunin kemur fram að yfirstandandi rekstarár verði það stærsta í sögu félagsins. „Veltan á fyrstu níu mánuðum ársins nam 27,1 milljarði króna og því líklegt að hún verði á bilinu 35 til 36 milljarðar á rekstrarárinu. Til samanburðar nam veltan um 28 milljörðum árið 2018, sem og árið 2017. Síðustu þrjú ár hefur Krónan skilað á bilinu 700 til 850 milljóna króna hagnaði á ári. Á þessu ári stefnir í að hagnaðurinn fari yfir milljarð,“ segir í frétt Viðskiptablaðsins.

„Auðvitað myndirðu ekki fara út í eitthvað sem þú stórtapar á, þetta gengur ekki ef við skilum ekki jákvæðri rekstrarniðurstöðu til langs tíma,“ segir hún.

„Stærsti fjárhagslegi ávinningurinn er ánægðir viðskiptavinir,“ segir Gréta. „Í raun er þetta ekki endilega spurning um fjárhagslegan ávinning sem slíkan því að ef við leggjum ekki okkar af mörkum þá munum við ekki eiga viðskiptavini í framtíðinni. Þá erum við ekki með.“

Neytandinn refsar þér mjög fljótt ef þú tekur þetta ekki föstum tökum. Það verður ekkert uppgjör eftir tvö, þrjú ár ef þú gerir þetta ekki.

Stjórnendur hjá Krónunni ákváðu árið 2015 að leggja sín lóð á vogarskálarnar þegar kemur að umhverfisáhrifum verslunarinnar með markvissum hætti. Þá setti Krónan sér það markmið að velja orkusparandi búnað þegar byggja á nýjar verslanir og við endurnýjun á þeim eldri. Fjárfest var í lokuðum kælum og frystum, CO2 kælikerfum og LED lýsing nýtt í stað flúorlampa. Þetta hefur orsakað 20 til 50 prósent minni orkueyðslu á ári. Árið eftir tók Krónan að bjóða viðskiptavinum sínum að kaupa vörur sem voru komnar fram yfir síðasta söludag á niðursettu verði til þess að sporna við matarsóun. Þessi ákvörðun hefur ekki einungis aukið jákvætt umtal í samfélaginu heldur einnig minnkað sóun hjá fyrirtækinu sem kemur fram í sparnaði. Þannig minnkaði matarsóun um rúman helming fyrsta árið sem Krónan tók hana föstum tökum.

Krónan hefur innleitt stafræna tækni í verslanir sínar í auknum mæli á síðastliðnum árum.

Þó sé mikilvægt að halda til haga að svona aðgerðir séu ekki hristar fram úr erminni, til þess að ráðast gegn matarsóun hafi verið hannað kerfi fyrir starfsfólk til þess að halda utan um rétta birgðastöðu og taka upplýstar ákvarðanir um hvenær vara er söluhæf og hvenær ekki. Tiltaka má fleiri aðgerðir fyrirtækisins sem hafa góð áhrif á umhverfið en bera einnig fjárhagslegan ávinning; til að mynda tóku stjórnendur Krónunnar þá ákvörðun fyrir þremur árum að hætta að senda auglýsingabæklinga í hús og sparast á því 92 tonn af pappír árlega. Sama ár var tekin sú ákvörðun að nýtast við græna fjölnota kassa fyrir innfluttar vörur en af því sparast 162 tonn af pappa á ári. Á vefsíðu Krónunnar má finna tímalínu þar sem fyrrnefndar aðgerðir fyrirtækisins eru teknar saman.

Gréta segir að sumar aðgerðanna sem fyrirtækið hefur ráðist í séu mögulega ekki arðbærar við fyrstu sýn. „Það að taka nammibarinn burt og fjarlægja sælgæti af kössum er í sjálfu sér ekki skref í átt að fjárhagslegum ávinningi, nammi er vara sem hefur háa framlegð þannig að ef þú myndir fjarlægja það án þess að gera nokkuð á móti myndi það einfaldlega draga úr hagnaði. Hins vegar finnum við að viðskiptavinir eru ánægðir með þessa áherslu, til dæmis þreyttir foreldrar sem losna við að hlusta á suð á kössunum í lok dags, og þá koma þeir frekar aftur.“ Þessi ákvörðun var tekin sem liður af því markmiði Krónunnar að efla lýðheilsu í landinu. Árið 2015 tók fyrirtækið einnig ákvörðun um að láta hollustuna fá besta plássið; ávextir taka á móti viðskiptavinum Krónunnar og snakk og nammi þarf að leita sérstaklega uppi.

„Unga kynslóðin er mun meðvitaðri en þær eldri og við finnum að þetta skiptir þau meira máli. Það eru okkar framtíðarviðskiptavinir, þau munu velja fyrirtæki sem er samfélagslega ábyrgt. Þetta er því ávinningur sem við munum sjá margfaldast í framtíðinni.“

Gréta segir framtíðarsýn eins og þessa nauðsynlega ef skapa á langlíft fyrirtæki. Framtíðarsýn starfsmanna Krónunnar sést í fleiri verkefnum en Gréta nefnir að draumur hennar sé að þróa hugbúnað í allar verslanir sem viðskiptavinir geta notað til þess að skoða næringarinnihald, virðiskeðju og kolefnisspor söluvara.

Öll fyrirtæki geta hagað rekstri sínum þannig að þau standi bæði skil á rekstrarhagnaði og samfélagslegum ávinningi að mati Grétu. Þetta tvennt haldist í raun í hendur og sé ekki hægt að aðgreina lengur. Sumt sé einfaldlega ekki hægt að meta til fjár.

„Fjárhagslegi ávinningurinn mælist óbeint í ánægju starfsmanna og viðskiptavina.“

Starfsumsóknir hjá okkur hafa aukist og þeir sem eru að sækja um hjá okkur segjast samsvara sig stefnu okkar í samfélagslegri ábyrgð.

„Við sjáum minni starfsmannaveltu þó náttúrulega sé eðli starfanna hjá Krónunni þannig að fólk kemur oft tímabundið til okkar.”

Gréta María segir fyrirtæki í sínum geira í kjörstöðu til þess að leggja sitt af mörkum þegar kemur að loftslagsmálum og samfélagslegri ábyrgð.

„Matvöruverslanir eru á gríðarlega góðum stað til þess að hafa áhrif því allir þurfa að versla í matinn. Viðskiptavinurinn kemur oft til okkar, sumir daglega, það eru ekki mörg fyrirtæki þannig. Ég lít þannig á að ábyrgð okkar sé jafnvel meiri í ljósi sérstöðu okkar þegar kemur að heimsóknarfjölda viðskiptavina.” Þá bendir Gréta á að það sem helst skapi sorp og úrgang séu neysluvörur og því geti matvöruverslanir beitt sér fyrir því að minnka plastnotkun.

Á vefsíðu Krónunnar er hægt að sjá öll sjálfbærniverkefni sem fyrirtækið hefur tekið sér fyrir hendur á liðnum árum.

„Við berum ábyrgð á þeim vörum sem við ákveðum að taka í sölu og þar getum við haft mikil áhrif. Innkaupadeildin okkar horfir til umbúða þegar við ákveðum að taka vörur í sölu, stundum eru umbúðir ekkert nema loft til dæmis. Þá er mikilvægt að huga að hringrásarhagkerfinu, vöruhönnuðir þurfa að taka tillit til þeirrar kröfu að varan geti verið endurnýtt. Þar getum við sett pressuna fyrr. Fyrir okkar eigin vörur höfum við skipt út plasti fyrir pappa á til að mynda umbúðum fyrir hakk og borgara.“ Þá býður Krónan nú viðskiptavinum sínum upp á að skilja umbúðirnar eftir í búðinni með sérstökum afpökkunarstöðum.

„Mér finnst það mín ábyrgð, sem einstaklingur sem er að stýra stóru fyrirtæki, að leggja mitt af mörkum til samfélagsins. Líka þegar þú greinir stöðuna á markaði, þá sérðu að þetta skiptir þjóðfélagið miklu máli í dag. Þeir aðilar sem eru í stöðu til þess að gera samfélagið betra, þeim ber skylda til þess.“

Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Marel Áhugi fjárfesta eykst með sjálfbærum viðskiptalausnum

Miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni

Mennta­veg­ur 1
101 Reykja­vík
festa@sam­felagsa­byrgd.is