Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Isavia Áhersla á sjálf­bærni er arð­bær fjár­fest­ing til fram­tíð­ar

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia
Markviss áhersla á samfélagsábyrgð og sjálfbærni er fjárfesting til framtíðar að mati stjórnenda hjá Isavia. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri, segir slíka vegferð ekki spretthlaup heldur langhlaup. Hann trúir því að fyrirtæki sem setji sjálfbærni á oddinn komi til með að lifa lengur á markaði en þau sem láta það undir höfuð leggjast. Isavia hefur á undanförnum árum hlotið mikið lof fyrir markvissa og mælanlega stefnu í samfélagsábyrgð en samfélagsskýrsla þeirra var á síðasta ári valin sú besta af hálfu Viðskiptaráðs Íslands, Stjórnvísis og Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð.

„Stefna Isavia í samfélagsábyrgð segir að félagið skuli stuðla að jafnvægi milli efnahags, umhverfis og samfélags með sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir Sveinbjörn. „Við viljum byggja upp rekstur sem er sjálfbær til lengri tíma litið, í samstarfi og sátt við viðskiptavini og aðra hagaðila og vinnum að góðu starfsumhverfi og ánægju starfsfólks félagsins.  Við setjum okkur árleg markmið í málaflokknum og vinnum markvisst að úrbótum.  Við birtum svo upplýsingar um framvindu samfélagsábyrgðar í samræmi við viðmið GRI – Global Reporting Initiative og UN Global Compact, sem við erum aðilar að.“ Fyrirtækið tekur þar að auki mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í markmiðasetningu sinni en sérstök áhersla hefur verið á heimsmarkmiðin heilsa og vellíðan (númer 3), jafnrétti kynjanna (númer 5 ), ábyrg neysla og framleiðsla (númer 12), aðgerðir í loftslagsmálum (númer 13) og samvinna um markmiðin (númer 17).

Þó ekki sé alltaf augljóst með hvaða hætti fjárhagslegur ávinning af því að stunda samfélagslega ábyrgð skilar sér segir Sveinbjörn að hann finni að þetta auki samkeppnisforskot fyrirtækisins, traust viðskiptavina og efli góða ímynd. „Það má heldur ekki gleyma mikilvægi þess að við viljum vera eftirsóknarverður vinnustaður og þessar áherslur eru liður í þeirri viðleitni.“ Hann segir þó að sínu mati eigi fyrirtæki ekki að horfa einvörðungu á fjárhagslegan ávinning þegar mótuð sé stefna í samfélagsábyrgð. „Við erum stórt fyrirtæki og erum að skila fjárhagslegri afkomu. Á sama tíma erum við að hafa áhrif á umhverfið okkar.“

Þannig að það má segja að með áherslu á sjálfbærni séum við að skila til samfélagsins því sem við höfum tekið til þess að skapa arð.

Sveinbjörn finnur greinilega fyrir því að kröfur samfélagsins til fyrirtækja á Íslandi séu að breytast. „Við finnum fyrir því að hagaðilar okkar gera kröfur til þess að við sýnum samfélagslega ábyrgð, og þetta er líka eitthvað sem við viljum sjálf standa okkur vel í. Við skiljum mjög vel okkar ábyrgð og þau lóð sem við getum lagt á vogarskálarnar eru þung og þessi sátt í rekstri fyrirtækja við umhverfið og samfélagið mun fyrr en síðar hafa áhrif á ákvarðanir viðskiptavina okkar.“

Hann segir að öll fyrirtæki á Íslandi eigi að geta unnið að jákvæðri rekstrarafkomu á sama tíma og þau vinna að almannaheill – þessu tvennu sé ekki hægt að stilla upp á móti hvort öðru. „Ekkert fyrirtæki starfar í tómarúmi, við erum öll tengd á einhvern hátt og höfum áhrif og berum ábyrgð. Fyrirtæki sem ekki skilgreina hagaðila sína og takast á við þarfir og kröfur þeirra tapa fljótt samkeppnisstöðu sinni. Það er mikilvægt að líta á þau samfélagslegu verkefni sem við tökumst á hendur í dag sem arðbæra fjárfestingu til framtíðar,“ segir Sveinbjörn sem var framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Isavia áður en hann tók við stöðu forstjóra. Hann segist viðurkenna að við fyrstu sýn hafi hann litið svo á að samfélagsábyrgð væri kostnaðarsamt verkefni án augljóss ávinnings. Þetta hafi hins vegar breyst þegar hann kynnti sér um hvað ábyrgir viðskiptahættir snúast í raun og veru.

„Við sjáum allt í kringum okkur ólík fyrirtæki sem eru vel rekin og skila eigendum sínum arði samhliða því að þau leggja sitt af mörkum til samfélagsins, og þá er ég ekki að horfa til fyrirtækja sem styrkja eingöngu hin ýmsu málefni, sem er allt gott og blessað, heldur þeirrar virðissköpunar sem fyrirtækið skilar til samfélagsins. Ég er ekki í neinum vafa að samfélagsábyrgð er mikilvæg fyrir góð viðskipti. Þar fyrir utan er til staðar krafa frá fjárfestum, stjórnum og lánastofnunum að sinna þeim hluta rekstursins.“

Ávinningur samfélagsábyrgðar er það mikill að hún á samleið með framtíðarsýn og þeim gildum sem hvert fyrirtæki stendur fyrir.

Jafnframt hafa starfsmenn Isavia fundið fyrir því að með því að rýna vandlega í stöðu fyrirtækisins í samfélagi á hverju ári, greina áhættuþætti og skoða hvernig betur megi fara séu þau betur í stakk búin til að bregðast við breytingum og kröfum sem verða í ytra umhverfi fyrirtæksins. „Þannig koma meðal annars ný lög og reglugerðir, þarfir og kröfur viðskiptavina og hagaðila okkur ekki að óvörum.“

Isavia tekur mið af heimsmarkmiðunum í áætlanagerðum sínum.

Aðspurður um hvernig fyrirtækið mæli fjárhagslegan ávinning af aðgerðum sínum segir hann aukna fjárhagslega arðsemi ekki vera lykilforsenda fyrir því að fyrirtækið ráðist í samfélagslega arðbær verkefni. „Eins og ég kom inn á áðan eru sum markmiðanna vel mælanleg með tilliti til fjárhagslegs ávinnings, eins og til dæmis minnkun eldsneytiskostnaðar eða magn úrgangs sem er losaður. Önnur atriði þarf að skoða í stærra samhengi og þá er mikilvægt að skilja meðal annars hvaða aðgerðir leiða til ákveðinnar niðurstöðu, með hvaða hætti sú niðurstaða næst og þá hvernig sú niðurstaða hefur áhrif á samfélagslega, umhverfislega og efnahagslega þætti. Að setja verðmiða á aðgerðir auðveldar vissulega allar ákvarðanir, en hinsvegar er oft erfiðara að meta aðgerðir sem tengjast félags- eða umhverfislegum atriðum til fjár.“

„Það skiptir miklu máli að samfélagsábyrgð sé óaðskiljanlegur hluti af stefnu hvers fyrirtækis og að ábyrgð á hverjum hluta hennar sé skilgreind á mismunandi stjórnstigum. Þetta þarf að endurspeglast í ákvarðanatöku fyrirtækisins hverju sinni,“ segir Sveinbjörn.

Auratal: Hagnaður af sjálfbærni

Krónan Sjálfbærni lykilatriði í blómstrandi rekstri Krónunnar

Miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni

Mennta­veg­ur 1
101 Reykja­vík
festa@sam­felagsa­byrgd.is