Markmiðið með viðurkenningunni fyrir Samfélagsskýrslu ársins er að hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta með vönduðum hætti upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri fyrirtækja skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi.
Alls bárust 27 tilnefningar og voru það 19 skýrslur sem hlutu tilnefningu – skýrslurnar má allar nálgast hér.
Í dómnefnd voru Tómas N. Möller yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna og formaður Festu, Hulda Steingrímsdóttir umhverfisstjóri Landsspítala og Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, sem var jafnframt formaður dómnefndar.
Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Krónan lítur á sig sem mikilvægan þátttakanda í samfélaginu og gerir sér grein fyrir því að í krafti stærðar sinnar geti fyrirtækið haft áhrif til góðs. Í því samhengi hefur umhverfisvernd, lýðheilsa og upplýst val verið skilgreind sem mikilvægustu málefnin. Auk kerfisbundinnar nálgunar á framsetningu um markmið, ásetning og árangur fyrirtækisins í þáttum sem lúta að samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni er í skýrslunni nefnd ýmis dæmi um framgöngu í verki.
Skýrslan er unnin með hliðsjón af UFS leiðbeiningum Nasdaq. Markmið hafa verið skilgreind og samþætt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í samræmi við kjarnastarfsemi fyrirtækisins og er þar einnig tekið mið af forgangsröðun stjórnvalda. Í skýrslunni er fjallað er um áherslu á nýsköpun í umhverfismálum en einnig hefur Krónan stutt við sprotafyrirtæki í matvöruvinnslu. Í framsetningu á efninu, og innihald skýrslurnar, er lagt út af þeim efnisflokkum sjálfbærni sem eru taldir mikilvægastir í starfseminni en fyrirtækið hefur með augljósum hætti beitt sér þar sem áhrif þess eru mest en það er í virðiskeðjunni.
Jóhanna Harpa formaður dómnefndar birti grein um mikilvægi öflugrar upplýsingagjafar fyrirtækja í Fréttablaðinu.
„Við erum gríðarlega þakklát fyrir að hljóta viðurkenningu fyrir samfélagsskýrslu Krónunnar því við leggjum áherslu á að hafa áhrif til góðs og sýna samfélagslega ábyrgð í verki – alltaf“
„Við erum gríðarlega þakklát fyrir að hljóta viðurkenningu fyrir samfélagsskýrslu Krónunnar því við leggjum áherslu á að hafa áhrif til góðs og sýna samfélagslega ábyrgð í verki – alltaf. Eins og kemur fram í ávarpi í upphafi skýrslunnar er Krónan svo heppin að hafa frábært starfsfólk – sem öll brenna fyrir samfélagslega ábyrgð. Það er ekki einn starfsmaður eða deild sem sinnir verkefninu á því sviði, heldur allt Krónuliðið og erum við afar stolt af þeim einlæga áhuga og elju – því saman höfum við náð ótrúlegum árangri eins og sjá má í skýrslunni okkar.“ segir Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir markaðsstjóri Krónunnar.
Hjördís Elsa tók við viðurkenningunni fyrir hönd Krónunnar en það voru Ásta Fjeldsted framkvæmdarstjóri Viðskiptaráðs, Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdarstjóri Stjórnvísi og Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdarstjóri Festu sem afhentu verðlaunin.
Magnús Harðarson forstjóri Nasdaq Iceland hélt ávarp við afhendinguna en fyrr á þessu ári stóð Nasdaq Iceland ásamt Festu, IcelandSIF, Staðalaráði og Viðskiptaráði Íslands að útgáfu UFS leiðbeininga sem nýtast íslenskum fyrirtækjum við útgáfu samfélagsskýrslna.
Í erindi Magnúsar kom fram að aukin áhersla á útgáfu samfélagsskýrslna eru svar við auknum kröfum fjárfesta og stjórnvalda. Þá kom fram í erindi Magnúsar að niðurstöður nýlegrar könnunar á vegum Morgan Stanley sýndu að 80% fagfjárfesta telja að UFS (umhverfi, samfélag og stjórnarhættir) áherslur geti leitt til aukins hagnaðar og að félög með slíkar áherslur kunni að vera betri langtímafjárfesting.
Hér má nálgast glærur frá erindi Magnúsar.
Fleiri myndir frá viðburðinum.
Myndir: hag