„Loftslagsmálin eru hópíþrótt – liðsandinn skiptir miklu máli. Halldór Þorgeirsson“
Loftslagsfundur Festu og Reykjavíkurborgar var haldinn föstudaginn 27.nóvember og var í beinu streymi frá Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Í ár eru fimm ár liðin frá því að þjóðir heims undirrituðu Parísarsamkomulagið og settu sér það markmið að halda hlýnun jarðar innan við 2°C og þá helst nærri 1,5°C. Einnig eru liðin fimm ár frá því að loftslagsyfirlýsing Festu og Reykjavíkurborgar var undirrituð í Höfða af rúmlega hundrað stjórnendum fyrirtækja og stofnana. Í erindum fundarins var farið yfir hvað hefur gerst á þessum fimm árum og farið yfir þær gríðarlegu breytingar og áskoranir sem eru í farvatninu á næstu fimm árum.
Á fundinum heyrðum við hagnýt og öflug erindi sem vísuðu okkur á næstu skref í átt að markmiðunum sem við settum okkur í París árið 2015. Umhverfis- og auðlindaráðherra tók líkt og síðustu ár virkan þátt í fundinum með okkur og erum við afar þakklát fyrir hans stuðning við verkefnið, í erindi hans fengum við að heyra hvað er framundan í loftslagsaðgerðum stjórnvalda og þau skref sem tekin hafa verið til að stórefla stjórnsýslu loftslagsmála. Fundurinn fór fram á sama tíma og ríkisstjórnarfundur og flutti ráðherra okkur því erindi sitt í gegnum upptöku.
Gunnhildur Fríða, ungur loftslagsakitivsti, sem við vorum svo heppin að fá til liðs við okkur og flutti hún okkur erindi sitt frá Flateyri þar sem hún stundar nám. Gunnhildur hvatti fyrirtæki til að setja skýrar mælanlegar einingar, tölur og dagsetningar, í loftslagsmarkmið sín. Hún lagði þá til að á kaffistofum fyrirtækja ætti að blasa við öllum upplýsingar um hvernig okkur gengur sem þjóð að vinna að losunarmarkmiðum okkar.
Formaður Festu, Tómas N. Möller, fór yfir hvaða hagnýtu leiðir eru aðgengilegar fyrirtækjum þegar kemur að loftslagsmarkmiðum ásamt því að fara yfir þær fimm aðgerðir sem alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey segir í nýlegri skýrslu, „Climate math: What a 1.5-degree pathway would take“, að þurfi að ráðast í til þess að ná helmings minnkun kolefnislosunar fyrir árið 203o.
Grænvangur, samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífsins um loftslagsmál, tók þátt í fundinum með okkur í ár. Birta K. Helgadóttir, verkefnastjóri Grænvangurs, sagði okkur frá þeim aðgerðum sem Grænvangur hefur verið að vinna að til að innleiða græn skref í rekstur og þau tæki og tól sem þau mæla með í þeirri vegferð fyrirtækja.
Við fengum þá til liðs við okkur þrjú fyrirtæki sem hafa undirritað Loftslagsyfirlýsinguna og eru til fyrirmyndar í framkvæmdum sem snúa að loftslagsaðgerðum, þau sögðu á fundinum í stuttu máli frá sinni vegferð. Þetta voru Vörður, Íslandshótel og Advania – það var Hulda Gunnarsdóttir hjá upplýsingadeild Rvkborgar sem sá um að taka upp og framleiða kynningar frá þessum fyrirtækjum.
Að lokum heyrðum við svo frá Halldóri Þorgeirssyni, formanni Loftslagsráðs, og Michael Nevin sendiherra Bretlands á Íslandi. Halldór hvatti okkur til að líta á vegferðina í þremur áherslum:
Við þurfm að taka ábyrgð á okkar losun og byrja að horfa á kolefniseiningar sem verðmæti. Með samtalinu leiðum við úr læðingi samtakamátt og skapandi öfl. Núna er tíminn fyrir SÓKN, kapphlaupið um samkepnni um kolefnishlutleysi framtíðarinnar er hafið – það er eina hagkerfið sem verður í boði. Skilaboð sendiherrans voru í sama anda, bæði Ísland og Bretland þurfa að fara í sókn og herða á aðgerðum, og um það snýst COP26 fundurinn í Glasgow á næsta ári. Þar verða allir aðilar aðilar kallaðir að borðinu í þeim tilgangi að:” Mobilizing coalitions to reach net zero.”
„Paris was about the agreement. Glasgow about how you are going to do it. Michael Nevin“
„Hvað veldur töfum? Núna er rétti tíminn til að taka stór skref. Látum tímann vera núna!. Gunnhildur Fríða“
Fyrir fundinn fór fram formleg undirritun þeirra fyrirtækja sem hafa bæst við í hóp undirritunar aðila að Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar. Í ár voru það 3 fyrirtæki sem öll hafa sett sér metnaðarfull markmið í anda yfirlýsingarinnar og eru hvert, á sínu sviði til fyrirmyndar, þegar kemur að loftslagsvænum rekstri.
Loftslagsviðurkenning Festu og Reykjavíkurborgar var nú veitt í fjórða sinn. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því sem vel er gert í loftslagsmálum og vera hvatning til annarra. Við matið var horft til ýmissa þátta, einkum til þess árangurs sem þegar hefur náðst við að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2020 hlaut Landspítalinn.
Sérstök nýsköpunarviðurkenning var nú veitt í fyrsta sinn en hana hlaut nýsköpunarfyrirtæki sem hefur náð eftirtektarverðum árangri í þágu loftslagsmála. Nýsköpun og uppbygging er níunda heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna enda er nýsköpun mikilvægur liður í því að stemma stigu við loftslagsvandanum. Nýsköpunarviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2020 fær Carbfix.
Nánar um verðlaunin og niðurstöður dómnefndar – hér.
Fundurinn markaði fimm ár frá upphafi samstarfs Festu og Reykjavíkurborgar utan um Loftslagsyfirlýsinguna. Á þeim tíma hafa verið haldin fjöldi námskeiða og vinnustofa, tugir fyrirtækja hafa bæst í hópinn, loftslagsmælirinn hefur haldið áfram að þróast og árlegir loftslagsfundir orðið öflugri með hverju árinu.
Eitt af því sem fylgir árlegum Loftslagsfundi er uppfærsla á Loftslagsmæli Festu, sem er opin öllum án endurgjalds á www.climatepulse.is.
Við erum full eftirvæntingar fyrir næstu fimm árum þar sem við stefnum á stór og hugrökk skref og tökum með okkur eldmóðin frá Loftslagsfundi ársins – tökum ábyrgð, virkjum öflugt samtal og förum saman í sókn.
Myndir: Sigurjón Ragnar