Festa — miðstöð um sjálfbærni eru frjáls félagasamtök með aðsetur í Háskólanum í Reykjavík.
Hlutverk Festu er að auka þekkingu á sjálfbærni fyrirtækja, stofnana og hverskyns skipulagsheilda. Festa eykur vitund í samfélaginu og hvetur til samstarfs og aðgerða á þessu sviði. Festa er brúarsmiður og leiðarljós. Festa tengir saman ólíka aðila; fyrirtæki, sveitafélög, stofnanir og einstaklinga sem vilja vera leiðandi á sviði sjálfbærni.
Festa var stofnuð árið 2011 af Íslandsbanka, Landsbankanum, Landsvirkjun, Rio Tinto Alcan á Íslandi, Símanum og Össuri. Markmið með stofnun miðstöðvarinnar var að auka þekkingu á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og efla getu fyrirtækja til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti.
Framtíðarsýn Festu er sú, að íslensk fyrirtæki og stofnanir stuðli að sjálfbærni og hafi auðgandi áhrif á umhverfi og samfélag.
Festa stendur fyrir fjölda viðburða á ári um sjálfbærni í samstarfi við aðildarfélög, hagaðila, stjórnvöld, háskóla og ýmis samtök. Festa stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum, fundum, hvatningarverkefnum og ráðstefnum. Markmiðið er — að efla getu fyrirtækja og hverskyns skipulagsheilda til að vera framúrskarandi á sviði sjálfbærni.
Festa er aðili að UN Global Compact og CSR Europe, sem eru Evrópusamtök miðstöðva um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Þá er Festa einn af stofnaðilum og stjórnarmeðlimum Nordic Circular Hotspot.
Tæplega 200 framúrskarandi fyrirtæki, sveitafélög og stofnanir eru aðilar að Festu. Því býður Festa uppá ómetanlegt tengslanet leiðandi aðila á sviði sjálfbærni. Festa hefur því bein áhrif á samkeppnishæfni og sjálfbærni í íslensku samfélagi.
Samkvæmt samþykktum Festu, er tilgangur félagsins að auka þekkingu á ábyrgð skipulagsheilda til að stuðla að sjálfbærni í starfsemi sinni og hjálpa þeim við að tileinka sér starfshætti sem stuðla að sjálfbærni. Félagið vinnur að tilgangi sínum með fjölbreyttri starfsemi, svo sem upplýsingagjöf á vefsíðu félagsins, ráðstefnu- og fundarhaldi, virkum samskiptum við aðildarfélög og þátttöku í opinberri umræðu, til að efla samskipti, samstarf og fræðslu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Aðildarfélög í Festu samþykkja siðareglur Festu sem kveða á um ástundun ábyrgrar starfsemi og að aðildarfélög gefi rétta mynd af samfélagsábyrgð sinni.
Komi upp alvarlegar ábendingar um brot á siðareglum Festu eiga stjórnendur Festu samtal við stjórnendur viðkomandi félags. Þar er farið yfir tilgang og siðareglur Festu. Komi fram að um brot sé að ræða segir aðildarfélagið frá áætlunum um að grípa til aðgerða sem koma í veg fyrir að slík mistök eða brot eigi sér stað aftur. Ákveðin er tímarammi fyrir slíkar aðgerðir og að honum loknum fundar Festa aftur með aðildarfélaginu til að fylgja framvindunni eftir. Markmiðið er sem fyrr, að auka getu og þekkingu félaga til að stuðla að sjálfbærni í starfsemi sinni.
Stjórn Festu tilnefnir eftir þörfum þriggja manna siðanefnd sem úrskurðar um brot. Ábendingar um brot skulu berast stjórn. Brot á siðareglunum geta varðað áminningu en einnig missi félagsaðildar ef um alvarleg eða ítrekuð brot er að ræða.
Rétt er að taka fram að Festa er ekki gæðavottunaraðili og gerir ekki úttekt á félögum til að meta frammistöðu þeirra á sviði sjálfbærni. Aðild að Festu lýsir fyrst og fremst ásetningi félaga til að ná árangri á sviði sjálfbærs reksturs með þátttöku í fræðslustarfi og viðburðum á vettvangi Festu.
Við vinnum af heilindum í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur.
Við hvetjum hvert annað, erum opin í samskiptum og miðlum af reynslu.
Við stuðlum að samvinnu ólíkra aðila um samfélagsábyrgð og sjálfbærni.
Stjórn Festu er skipuð sjö einstaklingum sem kosin eru á aðalfundi félagsins til þess að fara með málefni félagsins á milli aðalfunda. Formaður er líkt og meðstjórnendur kosinn til tveggja ára.
Háskólinn í Reykjavík, þar sem Festa hefur aðsetur, hefur rétt til að skipa frá sér einn fulltrúa í stjórn Festu.
Kjölfestur Festu styðja sérstaklega við störf Festu á áratugi aðgerða 2020-2030 og efla þróun í átt að sjálfbæru atvinnulífi á Íslandi. Kjölfestuaðild felur í sér einnar milljón krónu framlag, til viðbótar við almennt árgjald.
Takk fyrir!