Festa — miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni eru frjáls félagasamtök með aðsetur í Háskólanum í Reykjavík.
Hlutverk Festu er að auka þekkingu á samfélagsábyrgð og sjálfbærni fyrirtækja, stofnana og hverskyns skipulagsheilda. Festa eykur vitund í samfélaginu og hvetur til samstarfs og aðgerða á þessu sviði. Festa er því brúarsmiður og leiðarljós. Festa tengir saman ólíka aðila; fyrirtæki, sveitafélög og einstaklinga sem vilja vera leiðandi á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni.
Festa var stofnuð árið 2011 af Íslandsbanka, Landsbankanum, Landsvirkjun, Rio Tinto Alcan á Íslandi, Símanum og Össuri. Markmið með stofnun miðstöðvarinnar var að auka þekkingu á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og efla getu fyrirtækja til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti.
Framtíðarsýn Festu er sú, að íslensk fyrirtæki og stofnanir séu samfélagslega ábyrg og stuðli að sjálfbærni.
Festa stendur fyrir fjölda viðburða á ári um samfélagsábyrgð og sjálfbærni í samstarfi við aðildarfélög, hagaðila, stjórnvöld, háskóla og ýmis samtök. Festa stendur fyrir fjölbreyttum námskeiðum, fundum, hvatningarverkefnum og ráðstefnum. Markmiðið er — að efla getu fyrirtækja og hverskyns skipulagsheilda til að vera framúrskarandi á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni.
Festa er aðili að UN Global Compact og CSR Europe, sem eru Evrópusamtök miðstöðva um samfélagsábyrgð. Þá er Festa einn af stofnaðilum og stjórnarmeðlimum Nordic Circular Hotspot.
Tæplega 140 framúrskarandi fyrirtæki, sveitafélög og stofnanir eru í Festu. Því býður Festa uppá ómetanlegt tengslanet leiðandi aðila á sviði samfélagsábyrgðar og sjálfbærni. Festa hefur því bein áhrif á samkeppnishæfni og samfélagsábyrgð í íslensku samfélagi.
Við vinnum af heilindum í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur.
Við hvetjum hvert annað, erum opin í samskiptum og miðlum af reynslu.
Við stuðlum að samvinnu ólíkra aðila um samfélagsábyrgð og sjálfbærni.
Stjórn Festu er skipuð átta einstaklingum sem fara með málefni félagsins á milli aðalfunda. Formaður er kosinn til eins árs en meðstjórnendur til tveggja ára. Stjórnarmenn Festu eru kosnir á aðalfundi félagsins.
Einn af stjórnarmeðlimum Festur situr í stjórn fyrir hönd Háskólans í Reykjavík þar sem Festa hefur aðsetur.